Viðtalið á Skessuhorn.is - https://skessuhorn.is/2018/05/09/atthagafraedi-gsnb-fa-nemendur-ad-kynnast-umhverfi-sinu/
Viðtalið í heild sinni má lesa hér að neðan.
Átthagafræði kennd í Grunnskóla Snæfellsbæjar
Nemendur fá að kynnast umhverfi sínu
Átthagafræði hefur verið fastur liður í skólastarfi Grunnskóla Snæfellsbæjar síðastliðin átta ár. Föstudaginn 20. apríl sl. var opnuð heimasíða fyrir átthagafræðina, www.atthagar.is, þar sem er að finna námskrá og allar helstu upplýsingar um átthagafræðikennslu í skólanum. „Við viljum að nemendur kynnist samfélaginu sem þeir búa í og því var tekin ákvörðun um að fara út í skipulagða átthagafræðikennslu hjá öllum árgöngum skólans. Fyrsta námskráin var tekin í notkun árið 2010 og hefur hún verið í stöðugri þróun síðan. Í dag er búið að setja upp nákvæmt skipulag um hvaða viðfangsefni eru tekin fyrir hjá hverjum árgangi,“ segir Svanborg Tryggvadóttir kennari í Grunnskóla Snæfellbæjar í samtali við Skessuhorn.
Fjölbreytt nám í gegnum skólagönguna
Námskráin er sett þannig upp að nemendur sem ljúka námi við skólann eiga að hafa farið í gegnum alla þætti hennar. En hvað felst í námskrá í átthagafræði? „Námskráin byggir í grunninn á náttúru, landafræði og sögu bæjarfélagsins. Nemendur læra um sérstöðu bæjarfélagsins sem þeir búa í og hvernig þróun þess hefur verið í gegnum árin. Þeir læra til að mynda um jarðfræði, fugla, fiska og villt dýr. Kynnast verslunarsögu, búsetu fólks fyrr á tímum, raforkuframleiðslu og útræði til forna. Nemendur heimsækja söfn og fyrirtæki, taka svæði í fóstur og hreinsa umhverfið, fara í gönguferðir, læra örnefni og kynnast sögum af svæðinu,“ segir Svanborg. Átthagafræðinni er fléttuð saman við hefðbundið nám ásamt því að vera tekin fyrir á ákveðnum þemadögum. „Skipulag kennslunnar fer eftir aldri nemenda. Þeir vinna verkefni jafnt og þétt yfir árið auk þess sem valin verkefni eru unnin í hringekjum og á þemadögum,“ segir Svanborg.
Mikil velvild í samfélaginu
Í átthagafræði eru vettvangsferðir og upplifun mikilvægur þáttur námsins. Nemendur fara í ferðir þar sem þeir skoða náttúruna og ýmsa starfsemi í bæjarfélaginu í þeim tilgangi að kynnast nærsamfélaginu enn betur. „Við höfum lagt mikla áherslu á góða samvinnu við íbúa, félagasamtök og fyrirtæki í Snæfellsbæ og höfum alltaf mætt mikilli velvild. Þessi góða samvinna er okkur mikilvæg,“ segir Svanborg og heldur áfram. „Þau fyrirtæki sem við höfum leitað til hafa alltaf tekið vel á móti okkur og eiga tvö fyrirtæki sérstakar þakkir skildar. Það eru LákiTours í Grundarfirði sem hefur tekið vel á móti nemendum og boðið þeim í hvalaskoðun á Breiðafirði og Summit Adventure Guides á Gufuskálum sem hefur boðið nemendum í hellaskoðun í Vatnshelli og ferðir upp á Snæfellsjökul. Það er ómetanlegt að geta farið með nemendur í þessar ferðir og gera þeim kleift að upplifa þessar náttúruperlur. Þessar ferðir eru því mikilvægur hluti í námskránni, enda er starfsemi þessara fyrirtækja nátengd námsefni átthagafræðinnar,“ segir Svanborg og bætir því við að án velvilja þessara fyrirtækja hefði skólinn ekki kost á að fara þessar ferðir vegna kostnaðar. „Að sama skapi höfum við mætt miklum velvilja annarra fyrirtækja og félagasamtaka. Fulltrúar þessara hópa hafa ýmist komið í skólann með fræðslu eða tekið á móti nemendum.“
Þróun námskrár og nálgun viðfangsefna
Aðspurð hvers vegna þessi áhersla er lögð á átthagafræði í skólanum segir Svanborg forsöguna vera þá að við vinnu að skólastefnu Snæfellsbæjar árið 2009 hafi áhugi vaknað meðal starfsfólks skólans á að auka þekkingu nemenda á nærsamfélagi sínu. Skólinn fékk styrk úr Vonarsjóði til að vinna að gerð námskrár í átthagafræði sem er vendipunkturinn í innleiðingu námskrárinnar og því sem átthagafræðin byggir á í dag. Eins og fram hefur komið kom fyrsta útgáfa námskrárinnar út árið 2010 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Námskráin eins og hún er í dag hefur sterka tengingu í grunnþætti núgildandi aðalnámskrá grunnskóla samanber læsi, sjálfbærni og sköpun svo eitthvað sé nefnt. Þá segir Svanborg einnig að helsti kosturinn við námskrána sé uppbrot á almennri kennslu. „Fyrir utan hversu mikilvægt það er að þekkja nærsamfélagið vel er þetta einnig góð leið til að brjóta upp hefðbundið nám og kynna nemendur fyrir nýrri og fjölbreyttri nálgun við úrvinnslu og upplifun. Kennarar hafa frjálsar hendur með kennsluna og verkefnavinnu sem gerir námsefnið enn fjölbreyttara og skemmtilegra. Við höfum sett upp verkefnabanka sem kennarar geta leitað í til að sjá hvernig kennslunni hefur verið háttað. Hver og einn kennari getur unnið með viðfangsefnin eftir sínu höfði. Sumir kjósa að nýta náttúruna og umhverfið í kennslu á meðan aðrir nota til dæmis listsköpun, upplýsingatækni eða hverja þá nálgun sem þeim dettur í hug,“ segir Svanborg og bætir því við að umhverfisvernd sé alltaf stór partur af öllum verkefnum átthagafræðinnar og nemendum skólans sé kennt að bera virðingu fyrir umhverfi sínu.